Nýverið flutti Garri heildverslun í nýtt og glæsilegt húsnæði að Hádegismóum 1 í Reykjavík. Hönnun burðarvirkja, lagna og loftræsikerfa var í höndum Ferils auk verkefnisstjórnunar en arkitekt er Arkþing. Byggingin skiptist í þrjá hluta: kæli- og frystigeymslu, skrifstofubyggingu á fjórum hæðum og þurrvörulager, samtals um 8.000 fermetrar að stærð. Vöruhússhlutarnir eru stálgrindarhús klædd með samlokueiningum en skrifstofubyggingin á milli þeirra er staðsteypt með glerklæðningu.
Við alla hönnun og undirbúning var stuðst við vistvænar lausnir, bæði hvað varðar val á byggingarefnum og þegar kom að orkusparandi þáttum í rekstri lagnakerfa. Frystikerfið er svokallað kolsýrukerfi sem er orkusparandi, notar vistvænan kælimiðil og hentar einkar vel við íslenskar aðstæður. Samlokueiningar eru með steinullarkjarna, en sú gerð samlokueininga skilur eftir sig mun minna kolefnisspor en eldri gerðir samlokueininga sem algengastar hafa verið á íslenskum byggingamarkaði. Upphitun í vöruhússhlutanum er með hitapanelum sem nota mun minni orku en hefðbundnir hitablásarar. Raflýsing er með orkusparandi perum og þannig mætti lengi telja. Hönnun byggingarinnar hófst á árinu 2014 og framkvæmdir hófust samhliða hönnun sumarið 2015. Húsið var tekið í notkun um miðjan desember 2017.
Við óskum Garra til hamingju með nýja húsið, með þökk fyrir samstarfið.